Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Barnaverndarmál

Mál 491/2022

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 491/2022

Fimmtudaginn 8. desember 2022

A

gegn

Barnavernd Y

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurðar Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir formaður úrskurðarnefndar velferðarmála.

Með bréfi dags. 30. september 2022 kærði B., f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Barnaverndar Y um fjárstyrk til greiðslu lögmannskostnaðar. Með vísan til 2. mgr. 51. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 (bvl.) fer formaður úrskurðarnefndar velferðarmála ein með málið og kveður upp úrskurð í því. 

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Mál þetta varðar ágreining um greiðslu fjárstyrks vegna lögmannsþjónustu.

Samkvæmt bókun Barnaverndar Y, dags. 6. janúar 2022, samþykkti kærandi vistun barna sinna utan heimilis frá 12. janúar 2022 til 31. maí 2022, sbr. 1. mgr. 25. gr. bvl. Með bréfi, dags. 12. júlí 2022, fór kærandi fram á styrk til greiðslu lögmannskostnaðar. Meðfylgjandi var tímaskýrsla lögmanns fyrir unnar stundir á tímabilinu 8. apríl 2022 til og með 25. maí 2022, samtals 28 stundir.

Barnavernd Y barst tímaskýrsla lögmanns með tölvupósti þann 14. júní 2022, samþykkt var að greiða sem nam 15,75 klst. vinnu lögmanns. Með bréfi dags. 12. júlí 2022 óskaði kærandi eftir greiðslu þeirrar klst. sem eftir stóðu vegna starfa lögmannsins. Með bréfi Skóla- og velferðarþjónustu Y, dags. 2. september 2022, var tekin ákvörðun um að synja kæranda um frekari styrk vegna lögmannskostnaðar. Vísað var til þess að þá hafi staðið eftir 12,25 tímar sem barnavernd taki ekki þátt í að greiða þar sem þeir uppfylli ekki reglur skóla- og velferðarþjónustu um fjárstyrk vegna greiðslu lögmannskostnaðar.

Þann 10. október 2022 óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Skóla- og velferðarþjónustu Y. Greinargerðin barst þann 24. október 2022 og var hún dagsett sama dag. Greinargerðin var send til kynningar með bréfi dags. 25. október 2022, athugasemdir bárust frá kæranda þann 1. nóvember sama ár. Var greinargerðin send til kynningar til Skóla- og velferðarþjónustu Y með bréfi dagsettu sama dag. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Krafa er gerð um að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og Barnavernd Y verði gert að greiða 12,25 klst. sem eftir standa af tímaskýrslu lögmannsins vegna málsins.

Lögmaður kom að málinu í byrjun apríl 2022 vegna vistunar Barnaverndar Y á börnum kæranda utan heimilis. Málið hafi verið gríðarlega umfangsmikið, gagnamagn hafi verið sérlega mikið, yfir þúsund blaðsíður. Þann 24. maí 2022 hafi Skólaþjónustu- og velferðarnefnd Y tekið ákvörðun um að kanna hvort tilefni væri til að kyrrsetja börnin í vistun á vegum nefndarinnar í allt að tvo mánuði samkvæmt a-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Í aðdraganda málsins hafi lögmaður átt fund með kæranda, sem sé af erlendu bergi brotin, til að undirbúa málflutning og kanna afstöðu kæranda, auk þess að lesa yfir þann mikla fjölda gagna sem tengjast málinu. Fulltrúi lögmannsins hafi átt fund með barnavernd og lögfræðingi nefndarinnar í aðdraganda fundarins sem kvað síðan upp úrskurð á átta blaðsíðum um að börnin skyldu vistuð áfram utan heimilis, enda hafi verið fallist á þá fyrirætlan af hálfu kæranda, þó með fyrirvara væri.

Óskað hafi verið eftir því að lögmannskostnaður vegna 28 klst. sem komu til vegna undirbúnings og meðferðar málsins yrði greiddur af Skóla- og velferðarþjónustu Y. Tímaskýrsla hafi verið lögð fram þann 14. júní 2022 þar sem gerð var grein fyrir þeirri vinnu sem lögð hafi verið í málið. Deildarstjóri Barnaverndar Y hafi ákveðið að skera niður tímafjöldann í 14,75 klst. og af góðvild bætt við einni klst. Deildarstjórinn hafi sent fulltrúa lögmannsins yfirstrikað skjal þar sem yfirstrikaðir voru samþykktir tímar, annars vegar í upphafi máls og hins vegar í lok þess. Taldi deildarstjórinn hæfilegt að samþykkja 14,75 klst., auk „góðvildartíma“, sem hljóðaði þá upp samtals upp á 15,75 klst. sem greiddir voru.

Með bréfi, dagsettu 12. júlí 2022, var óskað eftir fjárstyrk vegna 12,25 klst. vinnu sem áður hafði verið synjað um að greiða þar sem um væri að ræða lögmannskostnað í tengslum við rekstur máls hjá barnaverndaryfirvöldum, sbr. 2. mgr. 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Synjað hafi verið um greiðslu fjárstyrksins með bréfi, dags. 2. september sl., af hálfu Barnaverndar Y. Vísað hafi verið til þess að ákvörðuninnni væri hægt að skjóta til Skólaþjónustu- og velferðarnefndar Y, en þar sem umsókninni hafi verið beint til nefndarinnar og send forstöðumanni Skóla- og velferðarþjónustu Y, var deildarstjóranum tilkynnt með tölvuskeyti að synjunin yrði borin undir úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 6. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Farið er fram á að úrskurðarnefnd velferðarmála úrskurði að Skóla- og velferðarþjónustu Y beri að greiða þá 12.25 tíma sem óskað var fjárstyrks vegna. Kærandi sé ekki borgunarmaður fyrir þeim kostnaði sem hlaust af þeim málarekstri sem hafinn var af barnaverndaryfirvöldum vegna ákvörðunar um að kyrrsetja börn hennar utan heimilis og vegna þessa sé óskað eftir styrk í samræmi við barnaverndarlög og reglur Skólaþjónustu- og velferðarnefndar Y.

Kærandi telji að sú ákvörðun deildarstjóra barnaverndar að skammta henni 14,75 klst. af vinnuskýrslu, auk einnar klst., standist ekki reglur og lög um fjárstyrki vegna lögmannskostnaðar. Því beri að ógilda ákvörðun deildarstjórans, dags. 2. september 2022. Hér með sé farið fram á að úrskurðarnefnd velferðarmála ógildi ákvörðun deildarstjóra Barnaverndar Y, dags. 2. september 2022, og ákvarði um fjárstyrk til handa kæranda.

Í skýringum deildarstjóra Barnaverndar Y þar sem merkt var í tímaskýrslu lögmanns með yfirstrikunarpenna, komi fram að aðeins sé rétt að greiða fyrir gagnasendingu í upphafi málsins 20. apríl 2022 og síðan samskipti sem áttu sér stað 16. til 25. maí 2022 þar sem lögmaður nefndarinnar hafi einnig verið viðstaddur en þó hafi ekki verið gerð athugasemd við að kærandi nyti liðsinnis lögmanns.

Í greinargerð deildarstjóra barnaverndar komi fram að í reglum Skóla- og velferðarþjónustu Y sé kveðið á um að veittur sé fjárstyrkur vegna fyrirtöku hjá skólaþjónustu- og velferðarnefnd og undirbúnings vegna fyrirtöku máls þegar til greina komi að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum. Einnig hafi þau samskipti, sem deildarstjórinn hafi talið að ekki féllu undir reglur um fjárstyrk vegna lögmannskostnaðar, snúið að „viðleitni til þess að ná ákveðnu samkomulagi“. Sú viðleitni hafi snúið að því að ná samkomulagi um hugsanlega áframhaldandi vistun barnanna utan heimilis ásamt því að ákveða umgengni því samhliða, sbr. tölvupóst frá deildarstjóra barnaverndar, dags. 5. maí 2022, er fylgdi með greinargerð Barnaverndar Y.

Kærandi telur Barnavernd Y ávallt tvinna saman ákvörðun um umgengni og vistun utan heimilis, sbr. samninga á milli foreldra og barnaverndar um umgengni og vistun utan heimilis sem undirritaðir voru 6. janúar 2022. Því voru samskipti lögmanns og kæranda vegna undirbúnings og fyrirtöku máls byggð á beitingu þvingunarúrræða samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002.

Bent hafi verið á að þau gögn sem barnavernd hafi sent lögmanni kæranda vegna málsins hafi verið yfir þúsund blaðsíður. Einnig að kærandi sé frá Z og hafi þurft á aðstoð lögmanns að halda, enda öll gögn málsins á íslensku. Það sé því fráleitt að kæranda sé hafnað að njóta aðstoðar lögmanns með því að hafna fjárstyrk vegna þessa, enda hafi Barnavernd Y aldrei gert athugasemdir við lögmannsaðstoð kæranda. Því beri Skóla- og velferðarþjónustu Y að greiða kæranda þá 12,25 klst. sem sótt hafi verið um fjárstyrk vegna, sbr. einnig ákvæði 47. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

III.  Sjónarmið BarnaverndarY

Í greinargerð Barnaverndar Y dags. 24. október 2022, komi fram að lögmaður kæranda hafi sent tímaskýrslu í tölvupósti þann 14. júní 2022 og óskað hafi verið eftir því að greitt yrði fyrir 28 tíma. Samþykkt hafi verið að greiða fyrir 15,75 tíma samkvæmt reglum Skóla- og velferðarþjónustu Y um greiðslu lögmannskostnaðar í barnaverndarmálum. Tölvupóstur hafi verið sendur lögmanni kæranda þar sem útskýrt hafi verið hvaða tímar væru samþykktir.

Í tímaskýrslu lögmannsins séu tilgreindir fundir sem og tölvupóstsamskipti hans. Í reglum um lögmannskostnað kemur meðal annars fram í 1. gr. að „Veittur er fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi Skólaþjónustu- og velferðarnefnd og undirbúnings vegna fyrirtöku máls. Aðeins er veittur fjárstyrkur þegar til greina kemur að beita þvingunarúrræðum samkvæmt barnaverndarlögum nr. 80/2002.“

Tekið hafi verið tillit til þeirra þátta sem fram koma í 1. og 4. gr. reglna um lögmannskostnað þegar ákvörðun um fjárstyrk hafi verið tekin. Önnur samskipti á tímaskýrslu sneru að umgengni móður við stúlkurnar og viðleitni til þess að ná ákveðnu samkomulagi vegna þess. Þannig hafi styrkur vegna þeirra tíma, sem tengdust beint fyrirtöku máls hjá skólaþjónustu og velferðarnefnd sem einnig fer með hlutverk barnaverndarnefndar, verið samþykktur.

Beiðni kæranda um að fá alla tíma samþykkta af tímaskýrslu frá 14. júní 2022 hafi verið tekin fyrir á tilkynningar- og meðferðarfundi Barnaverndar Y þann 30. ágúst 2022. Farið hafi verið vel yfir gögnin og eftirfarandi bókun gerð:

„Tilkynningar og meðferðarfundur barnaverndar hefur farið yfir beiðiA um fjárstyrk vegna lögmannskostnaðar. Umsókninni er synjað samkvæmt 4. gr. reglna Skóla-og velferðarþjónusta Y um greiðslu lögmannskostnaðar í barnaverndarmálum. Í reglunum kemur fram að styrkur vegna lögmannskostnaðar skal að hámarki vera greiðsla fyrir 10 klst. vinnu. A hefur nú þegar fengið samþykkt fyrir 15,75 tímum af þeim 28 sem tímaskýrsla var upp á  vegna fundar sem haldin var 23. maí 2022. AI er falið að kynna A niðurstöðu fundarins. (fylgiskjal 8)“

IV. Niðurstaða

Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun Barnaverndar Y, dags. 2. september 2022, um greiðslu styrks vegna lögmannskostnaðar verði felld úr gildi og Barnavernd Y verði gert að leggja til grundvallar tímaskýrslu lögmanns kæranda við ákvörðun lögmannskostnaðar og greiða einnig 12,25 klst. sem synjað var um greiðslu á. Með ákvörðuninni taldi Barnavernd Y að greiða skyldi færri tíma en kærandi telur að lögmaður hennar hafi unnið fyrir hana í málinu.

Barnaverndarnefnd er skylt að veita foreldri fjárstyrk samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl., sbr. 1. mgr. sömu lagagreinar, til að greiða fyrir lögmannsaðstoð sem veitt er í tengslum við andmælarétt foreldris við meðferð barnaverndarmáls áður en kveðinn er upp úrskurður í því. Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. bvl. skulu aðilar barnaverndarmáls eiga þess kost að tjá sig munnlega eða skriflega, þar með talið með aðstoð lögmanns, um efni máls og annað sem lýtur að málsmeðferðinni áður en barnaverndarnefnd kveður upp úrskurð í málinu. Barnaverndarnefnd skal veita foreldrum fjárstyrk til að greiða fyrir lögmannsaðstoð samkvæmt 2. mgr. 47. gr. bvl. eftir reglum sem nefndin setur. Þá segir í lagaákvæðinu að í reglunum skuli taka tillit til efnahags foreldra, eðlis og umfangs málsins.

Reglur Skóla- og velferðarþjónustu Y um greiðslu lögmannskostnaðar í barnaverndarmálum voru samþykktar þann 6. desember 2016, sbr. 47. gr. bvl. Í 2. mgr. 1. gr. kemur fram að aðeins sé veittur fjárstyrkur vegna fyrirtöku á fundi skólaþjónustu- og velferðarnefndar og undirbúnings vegna fyrirtöku máls. Í 1. mgr. 4. gr. reglnanna er kveðið á um að fjárhæð styrks skuli metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og skal tekið tillit til efnahags styrkbeiðanda þegar ákvörðun um fjárstyrk er tekin. Í 2. mgr. sömu greinar kemur fram að styrkur vegna lögmannskostnaðar skuli að hámarki vera greiðsla fyrir 10 klst. vinnu á tímagjaldi sem fram komi í viðmiðunarreglum dómstólaráðs um greiðslu málsvarnarlauna í sakamálum.

Af hálfu kæranda var lögð fram tímaskýrsla lögmanns þann 14. júní 2022 vegna lögmannsaðstoðar fyrir kæranda á tímabilinu 8. apríl 2022 til og með 25. maí sama árs. Mál kæranda snerist um vistun barna kæranda utan heimilis, sbr. a-lið, 1. mgr. 27. gr. bvl.

Í sundurliðaðri tímaskýrslu lögmanns kæranda er vinna lögmannsins vegna hagsmunagæslu fyrir kæranda tilgreind á tímabilinu 8. apríl 2022 til og með 25. maí sama árs, samtals 28 klst. Samþykkt var að greiða 15,75 klst. með vísan til reglna Skóla- og velferðarþjónustu Y. Hafnað var að greiða fyrir samskipti sem komu fram á tímaskýrslu og sneru að umgengni móður við börnin og viðleitni til þess að ná ákveðnu samkomulagi vegna þess. Styrkur vegna þeirra tíma sem tengdust beint fyrirtöku máls hjá skólaþjónustu- og velferðarnefnd var samþykktur.

Samkvæmt framangreindum reglum um veitingu fjárstyrks til greiðslu fyrir lögmannsaðstoð skal fjárhæð styrks metin með hliðsjón af eðli og umfangi málsins og að teknu tilliti til efnahags styrkbeiðanda. Í 2. mgr. 4. gr. reglna Skóla- og velferðarþjónustu Y kemur fram að styrkur vegna lögmannskostnaðar skuli að hámarki vera fyrir 10 klst. vinnu.

Í 47. gr. bvl. er kveðið á um að fara skuli eftir reglum sem barnaverndarþjónustan setur við ákvörðun á greiðslu fjárstyrks vegna lögmannsaðstoðar. Einnig er kveðið á um að í reglum skuli taka tillit til efnahags foreldra, eðlis og umfangs málsins. Telja verður að tímaskýrslan þjóni þeim tilgangi að veita upplýsingar um vinnu lögmanns vegna málsins. Tímaskýrslan hefur einnig þann tilgang, ásamt öðrum gögnum, að varpa ljósi á eðli og umfang málsins. Hún verður því höfð til hliðsjónar, eins og önnur gögn málsins, við ákvörðun styrkfjárhæðar. Í lögunum er gerð krafa um að meðal annars sé horft til eðlis og umfangs máls þegar ákvörðun er tekin um greiðslu styrks vegna lögmannsaðstoðar. Þegar litið er til framangreinds verður ekki séð að lagaheimild sé fyrir því að setja hámark á fjölda klukkustunda sem viðmið við greiðslu fjárstyrks eins og fram kemur í 2. mgr. 4. gr. reglna Skóla- og velferðarþjónustu Y, það er að styrkur vegna lögmannskostnaðar skuli að hámarki vera fyrir 10 klst. vinnu.

Hin kærða ákvörðun er felld úr gildi og málinu vísa aftur til Barnaverndar Y til meðferðar að nýju.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Barnaverndar Y frá 2. september 2022 í máli A, vegna fjárstyrks til greiðslu lögmannskostnaðar, er felld úr gildi og málinu vísað til Barnaverndar Y til meðferðar að nýju.

 

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

 

Guðrún Agnes Þorsteinsdóttur formaður

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum